Akureyri verði kolefnishlutlaust sveitarfélag - hvatning frá bæjarstjóra

Eiríkur Björn
Eiríkur Björn

Ágæta samstarfsfólk,

Bæjarstjórn hefur gert það að einu af meginmarkmiðum sínum að Akureyri verði kolefnishlutlaust sveitarfélag. Nú þegar er Akureyri einn umhverfisvænasti bær landsins og hefur ýmislegt verið gert til að stuðla að grænu og vænu samfélagi:

  • Flokkun úrgangs er hvergi jafn víðtæk og í raun rótgróin í hugarfari fólksins
  • Lífrænn úrgangur er endurnýttur í jarðgerðarstöðinni Moltu
  • Við söfnum notaðri matarolíu í svokallaðar grænar trektir og endurnýtum
  • Það er frítt í strætó
  • Ökutæki sem eru knúin hreinum innlendum orkugjöfum njóta forgangs í bílastæðum
  • Settar hafa verið upp hleðslustöðvar fyrir nýorkubíla
  • Við höfum stuðlað að bættri reiðhjólamenningu
  • Á loftlagsráðstefnunni í París í lok síðasta árs skrifaði ég undir samning bæjarstjóra hvaðanæva að úr heiminum um að draga úr mengun

Stefna okkar er að Akureyri verði orðin kolefnishlutlaus og helst gott betur en það árið 2030.

Margt smátt gerir eitt stórt!

Ég vil hvetja allt starfsfólk bæjarins og forstöðumenn stofnanna til að leggja sitt af mörkum. Hugsum okkur vel um og flokkum rétt. Notum grænu trektina fyrir matarolíu sem á ekki heima í niðurföllum eða holræsakerfi bæjarins. Notum frekar umhverfisvænan ferðamáta en mengandi farartæki. Hver og einn getur gert sitt til þess að bærinn okkar verði ennþá grænni og vænni.

Leggjumst öll á árarnar og gerum góða Akureyri ennþá betri!

Með kveðju,

Eiríkur Björn

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan