Ferðalag yfir heimskautsbauginn, miðnætursól, fjölskrúðugt fuglalíf, óspillt náttúra, ferskt loft, kyrrð og ró. Það eru innihaldsefni í uppskrift að góðum degi í þætti N4 sem að þessu sinni var tekinn upp í Grímsey.
Grímsey liggur á heimskautsbaug, 41 km frá norðurströnd landsins. Hún er 5,3 ferkílómetrar að flatarmáli og 5,5 km að lengd. Þótt eyjan virðist kannski ekki stór úr lofti þá leynir hún á sér og því mikilvægt að gefa sér góðan tíma ef maður ætlar að upplifa það sem hún hefur upp á að bjóða.