Viðburðir

Nokkrir árvissir viðburðir eru í eyjunni:

  • Þorrablót í byrjun febrúar.
  • Bolludagur (febrúar-mars). Það er hefð meðal barna í Grímsey að safnast saman í skólanum klukkan 4 að morgni mánudags (7 vikum fyrir páska). Þaðan fara þau á milli ólæstra húsa og vekja íbúa með skreyttum bolluvöndum og heimta sælgæti eða kökur. Í tilefni dagsins fá börnin frí í skólanum.

  • Sjómannadagurinn. Dagurinn sem er fyrsti sunnudagur í júní ár hvert er fagnað með dagskrá sem er sérsniðinn árlega en ávallt með einum föstum lið sem er sjómannadagskaffihlaðborð á vegum kvenfélagsins í félagsheimilinu Múla.

  • Sumarsólstöðuhátíð. Grímseyingar halda bæjarhátíð í tilefni af sumarsólstöðunum dagana 21.- 24. júní og bjóða gestum og gangandi að taka þátt í hátíðarhöldunum með sér. Gestum er boðið að taka þátt í allskyns uppákomum og afþreyingu og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Sjá dagskrá hér                    
  • Norðurheimskautsbaugshlaupið í byrjun september. Hlaupið fer fram í Grímsey og verða tvær leiðir í boði. Annars vegar verður hlaupinn einn hringur í kringum Grímsey en hann telur tæpa tólf kílómetra og hins vegar verða hlaupnir tveir hringir í kringum eyna, sem teljast þá rúmlega hálfmaraþon. Hlaupið hefur verið í dvala síðan 2017 en verið er að vinna í því að endurvekja það.

  • Fiske-hátíðin 11. nóvember. Þjóðhátíðardagur Grímseyinga er haldinn á afmælisdegi velgjörðamannsins Fiske með veglegu kökuhlaðborði.
Síðast uppfært 31. maí 2024