Allir nemendur Grímseyjarskóla eru nú lagðir af stað í þriggja daga skíða- og skemmtiferð til Akureyrar. Auk þess að fara á skíð verður farið í leikhús og keilu, út að borða og ýmislegt fleira sér til gamans gert. Flogið var með Norlandair frá Grímsey í dag og verður snúið aftur heim á föstudag.
Í skólanum eru þrettán nemendur á aldrinum 6-13 ára og með í för eru tveir foreldrar og tveir kennarar. Á meðfylgjandi mynd vantar fjóra nemendur sem nú þegar eru komnir til Akureyrar.
Nú er rjómablíða í Grímsey en flotinn fór óvenju seint á miðin í morgun því veðrið var afleitt í nótt. Yfirleitt er lagt úr höfn klukkan 4-5 að morgni en vegna veðurs var ekki haldið af stað fyrr en um hálfáttaleytið.