Haftyrðill heimsótti Grímsey í gær en hann er minnstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara.
Anna María Sigvaldadóttir rakst á þennan sjaldgæfa gest fyrir utan sundlaugina í gær. Með lagni tókst að fanga fuglinn og honum var síðan sleppt á hafnarsvæðinu þar sem hann tók flugið. Anna María hefur aldrei séð haftyrðil í Grímsey áður en þar hefur hún verið búsett í 30 ár.
Samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar Íslands eru haftyrðlar einn algengasti sjófuglinn í Norður-Atlantshafi. Hér var hann sjaldgæfur varpfugl og voru síðustu varpstöðvar hans í Grímsey. Talið er að síðasta varpið hafi verið um 1997 og bendir allt til þess að haftyrðill sé horfinn úr tölu íslenskra varpfugla. Nánar um fuglategundina. Náttúrufræðistofnun Íslands.