Í dag, föstudag, fer fram reglubundinn stjórnarfundur Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vanalega er fundað í Reykjavík en að þessu sinni var ákveðið að bregða út af vananum og halda fundinn í Grímsey. Fundarmenn komu til Grímseyjar í morgun og að lokinni skoðunarferð um eyna tóku við fundarhöld í félagsheimilinu Múla. Alls eru um 40 mál til umfjöllunar og þar af 15 til afgreiðslu. Stjórnin heldur að fundi loknum til Húsavíkur og hittir þar sveitarstjórn Norðurþings.