Laugardaginn 24. febrúar kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Önnur þeirra er Sköpun bernskunnar 2018, samsýning listamanna, skólabarna og Leikfangasafnsins á Akureyri, en þar er Grímseyjarskóli á meðal þátttakenda.
Þetta er fimmta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum tveggja til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin á Akureyri. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver og ein sýning sjálfstæð og sérstök. Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og var valin til þátttöku í Barnamenningarhátíð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2017. Þemað að þessu sinni er tröll í víðum skilningi sem vísar í þjóðsögur Íslendinga. Á sýningunni mætast þátttakendur og eiga listrænt samtal við sýningargesti.
Þátttakendur að þessu sinni eru Georg Óskar, Ninna Þórarinsdóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir, Leikfangasafnið á Akureyri, Grímseyjarskóli, Oddeyrarskóli, Iðavöllur og Krógaból. Boðið verður upp á listasmiðju með Ninnu Þórarinsdóttur sunnudaginn 25. febrúar kl. 11-12 og fjölskylduleiðsögn laugardagana 10. mars og 14. apríl. Aðgangur ókeypis.