Grímseyjardagurinn verður haldinn öðru sinni helgina 1.-3. júní nk. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá sem byggist á grímseyskum hefðum. Farið verður í ratleiki, siglingar, kríueggjaleit og fleira. Vanir menn síga í björg og sækja egg. Dagskránni lýkur síðan með glæsilegu sjávarréttahlaðborði í félagsheimilinu Múla að kvöldi laugardagsins.
Undirbúningur fyrir Grímseyjardagana er hafinn fyrir allnokkru síðan en Grímseyingar standa alfarið að hátíðinni og taka vel á móti gestum. Tveir starfsmenn Akureyrarstofu voru í eyjunni síðastliðinn þriðjudag að stilla saman strengi með Grímseyingum og við það tækifæri tók Ragnar Hólm meðfylgjandi myndir.
Nánari upplýsingar um Grímseyjardagana, ferðir út í eyju og fleira, er að finna á visitakureyri.is.