Rúmur mánuður er síðan að Grímseyjarferjan Sæfari fór í slipp til Akureyrar. Síðan þá hefur fisk- og vöruflutningum verið bjargað með fiskiskipinu Þorleifi og farþegaflutningar eingöngu farið fram með flugi Norlandair milli Akureyrar og Grímseyjar, sem er með áætlun 4 daga vikunnar.
Nánast öll raforka í Grímsey er framleidd í díselrafstöð eyjarinnar og var farið að halla töluvert á olíubirgðirnar sem hefðu bara dugað í nokkra daga til viðbótar, enda voru margir í eyjunni um páskana og talsverð útgerð, en vel hefur viðrað til veiða.
Olíuskipið Keilir sem siglir með olíu á hafnir landsins, kom því við í gærkvöldi og fyllti tanka eyjarinnar þannig að nú ætti að vera til næg olía í Grímsey þangað til að ferjan hefur siglingar á ný um miðjan maí.