Góð stemning var á Grímseyjardögum sem haldnir voru hátíðlegir um síðustu helgi í rjómablíðu og koppalogni. Mun fleiri sóttu hátíðina nú en í fyrra og naut fólk útiveru við alls kyns leiki frá morgni til kvölds og fram eftir nóttu í fögru sólsetri.
Á föstudagskvöldið var farið austur á eyju og horft á bjargsig. Þaðan var haldið út á Fót sem er nyrsti hluti eyjarinnar þar sem var meðal annars hlustað á harmonikkuleik, horft á fjölskrúðugt fuglalífið og fólk naut lífsins á meðan sólin hneig til viðar.
Mikil og góð þátttaka var í öllum viðburðum helgarinnar. Þeir sem höfðu aldur til mættu á ballið á laugardagskvöldið og stigu dansinn fram á rauðanótt.
Vel var bókað í aukaflug með Norlandair til Grímseyjar og flest gistipláss í eyjunni full yfir helgina. Þó hefðu mun fleiri komist fyrir á tjaldsvæðinu í eyjunni þar sem gott er að una þegar veðrið er jafn blítt og raun bar vitni á Grímseyjardögum.
Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfur.