Í gær, 11. nóvember, var haldið upp á fæðingardag velgjörðarmanns Grímseyinga, Bandaríkjamannsins Daniels Willards Fiske, en sá dagur er ávallt haldinn hátíðlegur í Grímsey.
Haldið var kaffisamsæti í félagsheimilinu Múla kl. 18.00, boðið upp á heitt súkkulaði og bakkelsi, lesið ágrip um Fiske sem var fæddur 1831 og gluggað i gömul albúm úr skólanum. Kvenfélagið Baugur hefur séð um skipulagið á hátíðinni óslitið frá stofunn félagsins árið 1957. Mjög góðmennt en fámennt var úti í eyju í gær eða einungis 10 manns að þessu sinni.
Saga Daniels Willards Fiske er um margt óvenjuleg en hann gerðist mikill velgjörðarmaður Grímseyinga á 19. öld þrátt fyrir að hafa aldrei komið til Grímseyjar, einungis siglt einu sinni í námunda við eyjuna. Sem ungur maður fékk Fiske mikinn áhuga á Íslandi og lærði íslensku í Kaupmannahöfn þar sem hann kynntist Íslendingum er hann var í námi í norrænum fræðum.
Í Grímsey má ennþá finna muni sem hann gaf til eyjarinnar, meðal annars töluvert magn bóka. Þar eru einnig minnismerki og söguskilti um Fiske.