Grímseyingar gleðjast nú yfir því hversu margir Íslendingar hafa lagt leið sína til eyjunnar í sumar. Íslenskir ferðamenn hafa í mörgum tilvikum dvalið í eina eða tvær nætur og verið duglegir að nýta sér þá þjónustu sem er í boði, verslað í búðum eyjarinnar, keypt vel af veitingum og valið vörur úr heimabyggð fram yfir annað.
30-50 manns fóru að jafnaði með ferjunni Sæfara í hvert sinn, samkvæmt skipstjóranum Magnúsi Hafsteini Skaptasyni, og því má segja að sumarið hafi komið skemmtilega á óvart. Í dag, miðvikudag, eru til að mynda um 52 farþegar á leið út í eyju og hafa mest verið um 70. Í byrjun sumars voru þetta nær eingöngu Íslendingar en þegar leið á sumarið fóru erlendir gestir líka að sjást. Þeir síðarnefndu hafa fyrst og fremst kosið dagsferðir, um fimm klukkutíma dvöl á meðan ferjan liggur að bryggju í Grímsey. Komur skemmtiferðaskipa féllu nánast alveg niður í sumar fyrir utan þrjár og því var töluvert minna selt af minjagripum og lopapeysum en fyrri ár.
Nú fer að líða að hausti sem er einnig frábær tími til að heimsækja nyrstu byggð Íslands. Ferjan Sæfari siglir 5 daga í viku út ágúst en í september siglir hún fjóra daga vikunnar: mánudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga auk þess býður Norlandair upp á áætlunarflug frá Akureyri tvisvar sinnum í viku í ágúst og þrisvar sinnum í viku í september og út árið.
Hægt er að kynna sér þjónustu, afþreyingu og áhugaverða staði í Grímsey hér á vefnum