Fyrstu vorboðarnir í Grímsey hafa gert vart við sig. Sauðburður hófst 17.mars og nú þegar eru þrjár kindur bornar, fyrst var ærin Lóa sem bar tveimur lambhrútum. Í Grímsey eru tvö fjárbú með alls um 140 ær. Sauðburður hefst að venju af fullum krafti um næstu mánaðamót og eru þessar kindur því nokkuð á undan áætlun.
Sjófugar eru að mestu komnir og settust álkan og langvían þegar í björg um miðjan mars. Lundinn er farinn að sækja heim að varpslóðum í Grímsey eftir vetrardvölina en í eynni er ein stærsta lundabyggð Íslands. Það sást til fyrstu lundanna í síðustu viku. Í byrjun sáust einungis nokkrir fuglar en tveimur dögum síðar var fjöldinn orðinn mikill. Lundinn heldur sig fyrst um sinn úti á sjó en leitar síðan upp á eyjuna eftir miðjan apríl.