Synt í sjónum við Grímsey

Link Kokiri.
Link Kokiri.

Bandaríski ferðamaðurinn Link Kokiri dvaldist í Grímsey á dögunum og kunni vel við sig. Svo vel reyndar að hann synti allsnakinn í sjónum við eyna: “Ég gat ekki sleppt því tækifæri að synda í sjó norður fyrir heimskautsbauginn, “ svarar Link þegar hann er spurður um uppátækið. 

 “Ég og nokkrir vinir mínir gerðum með okkur samning um að synda allsnaktir utandyra a.m.k. einu sinni í mánuði allt árið um kring. Það var því upplagt að stinga sér til sunds við Grímsey og ég fann mér góðan stað norðan við eyna. Mér fannst sjórinn ekki það kaldur og naut mín vel þarna ofan í. Þetta var algjörlega hápunktur dvalar minnar á Íslandi!"

Link Kokiri er tryggingastærðfræðingur sem er búsettur í borginni Ann Arbor í Michigan í Bandaríkjunum og er þetta í fyrsta sinn sem hann heimsækir Ísland. "Mér fannst frábært í Grímsey en ég kom þangað ásamt tveimur vinum mínum sem ég kynntist á Íslandi. Þetta er mjög falleg eyja og við gengum hringinn í kringum hana á einum degi sem var ákaflega skemmtilegt. Það var reyndar ekki sársaukalaust fyrir mig að komast til Grímseyjar því ég varð mjög sjóveikur á leiðinni með Sæfara en það var algjörlega þess virði,” segir ævintýramaðurinn Link Kokiri.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan