Stórslysaæfingar í Grímsey

Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir

Um 60 manns tóku þátt í stórslysaæfingum í Grímsey um síðustu helgi.

Að búa í fámennu einangruðu samfélagi við norðurheimskautsbaug er talsverð áskorun og ekki síst þegar eitthvað bjátar á. Þetta eru aðstæður sem íbúar í Grímsey búa við og þurfa því að treysta á aðstoð úr landi þegar slys ber að höndum. Þá er aðeins í boði að koma fljúgandi eða siglandi þeim til aðstoðar, sem tekur talsverðan tíma og er háð veðri hverju sinni. Í því samhengi er nauðsynlegt að undirbúa heimafólk sem best með hvaða hætti það gæti þurft að takast á við krefjandi verkefni og slys.

Haldin var æfing á sjó, þar sem líkt var eftir því að flugvél hefði farist og að leita þyrfti að þeim aðilum sem þar höfðu verið um borð og flytja í land í Grímsey. Varðskipið Freyja var á svæðinu og stýrði aðgerðum.

Einnig var æfing þar sem unnið var með það að flugvél hefði brotlent við norðurenda flugbrautarinnar, miklir eldar hefðu kviknað og fjöldi farþega slasast. Um krefjandi slökkvistarf var að ræða og tók svo bráðaflokkun sjúklinga og aðhlynning við þá. Við slíkar aðstæður reynir mikið á heimafólk því biðtími eftir utanaðkomandi aðstoð er að lágmarki 60 mínútur. 

Æfingin var sett á fimmtudeginum og lauk á laugardeginum. Á sama tíma fengu Grímseyingar nýjan slökkvibíl, sem tók við af eldri bíl. Nýi bíllinn er kraftmeiri og betur tækjum búinn og því mikil búbót fyrir viðbragðsaðila í eyjunni.

Það var lán í óláni að æfingin hófst á fimmtudeginum því eldur kviknaði við eitt íbúðarhúsið í Grímsey rétt eftir að viðbragðsaðilar voru mættir út í eyju. Vel gekk að slökkva eldinn og urðu skemmdir litlar.

Að æfingunum komu ISAVIA, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, björgunarsveitir á Norðurlandi, Landsspítalinn, Slökkvilið Akureyrar, HSN, RKÍ, SAk og Neyðarlínan.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan