Um helgina verður haldin árleg Sólstöðuhátíð í Grímsey. Dagskráin einkennist af góðri samveru og fögnuði nú þegar birtu nýtur allan sólarhringinn.
Þjóðhátíðardeginum verður fagnað með ungum sem öldnum að hætti Grímseyinga og um helgina er boðið upp á siglingu í kringum eyjuna, göngu yfir heimskautsbaug á sumarsólstöðum með söng og gítarleik, dorgveiðikeppni, sjósund og bryggjuför, að ógleymdu hinu margrómaða sjávarréttakvöldi kvenfélagsins Baugs. Fólk syngur saman við varðeld og loks verður slegið upp dansleik í félagsheimilinu Múla.