Skákdagur Íslands var að sjálfsögðu haldinn hátíðlegur í Grímsey á fimmtudag í síðustu viku á 77 ára afmælisdegi stórmeistarans Friðriks Ólafssonar en Grímsey var löngum eitt höfuðvígi skálistarinnar á Íslandi. Í tilefni dagsins kom Hrafn Jökulsson rithöfundur og skákfrömuður í heimsókn til eyjarinnar og varði fyrri hluta dags með skólabörnum við að tefla og fræða um skákina.
Um kvöldið var boðið til fjölteflis með Hrafni og öttu 18 eyjarskeggjar kappi við hann. Alls mættu um 30-40 manns í félagsheimilið Múla til að fylgjast með eða ríflega helmingur íbúa eyjarinnar.
Skákhefðin á sér langa sögu í Grímsey en Grímseyingar voru um langt skeið taldir meðal bestu skákmanna landsins, enda var skák aðaldægrastytting þeirra á vetrum. Þegar bandaríski ritstjórinn og fræðimaðurinn Daniel Willard Fiske komst á snoðir um þennan skákáhuga Grímseyinga um aldamótin 1900 þótti honum það stórmerkilegt og gaf þeim bókasafn og gaf digran sjó til menntunar þeirra og jarðabóta á eyjunni. Sjá til dæmis skrif á Wikipedia um Fiske.