Óvenju mikið er um að vera í Grímsey um þessar mundir. Í gærkvöldi voru 15 bátar í höfn og hafa margir verið á veiðum að undanförnu.
Mikill kraftur er í heimafólki á öllum aldri, en líkt og sagt var frá í vor þá fjárfestu tveir ungir Grímseyingar nýverið í bátum, þeir Ingólfur Bjarni Svafarsson, 22 ára, og Bjarni Reykjalín Magnússon, 21 árs.
Báðir eru þeir mjög ánægðir með reynsluna í sumar sem var vonum framar og munu halda ótrauðir áfram. Smábátaveiði er árstíðarbundin og reiknar Bjarni með að geta gert út þennan mánuð, taka bátinn síðan á land og geta hafið veiði á ný í byrjun apríl.