Tilkynnt var um eld í Miðgarðakirkju seint í gærkvöldi. Hún varð fljótt alelda og varð ekki við neitt ráðið. Kirkjan brann því til grunna á stuttum tíma í stífri norðanátt og er að svo stöddu ekki vitað um upptök eldsins.
Kirkjan var byggð árið 1867 úr rekaviði. Hún stóð þá nær Miðgarðabænum en var færð um lengd sína árið 1932 vegna eldhættu og um leið var byggður við hana kór og forkirkja með turni. Gagngerar endurbætur á kirkjunni fóru fram 1956 og hún var endurvígð.
„Þetta er mikið reiðarslag og tilfinningalegt tjón fyrir Grímseyinga og okkur öll sem unnum eyjunni á heimskautsbaugnum. Byggðin í Grímsey hefur staðið höllum fæti og áfall á borð við þetta er því þyngra en tárum taki," segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar og þar með Grímseyjar sem sameinaðist sveitarfélaginu Akureyrarbæ árið 2009.
Hér á heimasíðunni segir orðrétt um Miðgarðakirkju:
Miðgarðar er nyrsti kirkjustaður á Íslandi. Jón biskup Ögmundsson vígði kirkju í eyjunni snemma á elleftu öld. Var hún helguð Ólafi, þjóðardýrlingi Norðmanna, og skyldu þjóna við kirkjuna tveir prestar og syngja messu á hverjum degi en tvær messur á dag á sérstökum helgidögum. Síðan hefur dregið úr helgihaldi en þekkt eru nöfn 50 presta sem þar hafa þjónað. Eyjunni er nú þjónað af presti Dalvíkurprestakalls. Kirkjan er byggð 1867 en stækkuð og endurbætt árið 1932. Altaristaflan er gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og er eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci.
Allir munir í kirkjunni urðu eldinum að bráð.