Rétt um 1.500 manns tóku þátt í leik sem Akureyrarstofa stóð fyrir í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Grímsey. Í verðlaun var vorferð til Grímseyjar fyrir tvo og var nafn Guðmundar Kjartanssonar á Akureyri dregið úr hattinum. Guðmundur ætlar að skella sér norður fyrir heimskautsbaug með kærustu sinni Signýju Berg.
Guðmundur fór til Grímseyjar í fyrsta sinn síðastliðið haust, þá í vinnuferð. Vann hann við að setja upp nýtt grillhús við tjaldsvæði eyjarinnar og stóð ferðin í heila viku. Að sögn Guðmundar náði hann að upplifa fallegt sólsetur, stjörnubjartar nætur og norðurljós, enda var veðrið einstaklega gott allan tímann. Hann hlakkar til þess að fara aftur á öðrum árstíma, ná að upplifa birtuna og fuglalífið sem einkennir vorið í þessari ferð.
Í leiknum var spurt hversu oft á viku Sæfari sigli til Grímseyjar á sumrin. Rétt svar er fimm sinnum á viku. Guðmundur hlaut í verðlaun siglingu fram og til baka með Sæfara til Grímseyjar, gistingu á Básum og Gullsól, kvöldverð á veitingastaðnum Kríunni og skírteini því til staðfestingar að hafa farið yfir heimskautsbauginn.