Vorið er farið að láta á sér kræla norður við heimskautsbaug eftir frekar erfiðan og snjóþungan vetur. Langvían og álkan eru nú þegar sestar upp í björgin til að tryggja sér hreiðurstæði og lundinn var að mæta.
Lundinn kemur ávallt til Grímseyjar um þetta leyti árs. Hann byrjar á því að finna holuna sína, tekur til við að fjarlægja rusl og laga holuna. Hann notar þá gogginn til að grafa og fæturna til að moka. Talið er að það sé karlfuglinn sem mæti fyrst og sjái um tiltektina og að kvenfuglinn komi u.þ.b. viku síðar.
Guðrún Inga Hannesdóttir náði þessum fallegu myndum í gær en einstaklega fallegt veður hefur verið undanfarna daga.