Jóladagskrá Grímseyinga hófst liðna helgi en þá héldu Kiwanis klúbbur eyjarinnar og Kvenfélagið Baugur sitt árlega jólahlaðborð í félagsheimilinu Múla og tóku um 40 manns þátt. Þá var einnig kveikt á jólatrénu sem stendur við húsið.
Grímseyingar urðu fyrir barðinu á veðrinu sem herjað hefur á landsmenn undanfarna daga og féllu samgöngur niður á meðan á því stóð. Það stefnir þó í betra veður og eru vonir bundnar við flug í dag og síðan ferju á morgun sem kemur fólki heim og vistum til eyjaskeggja m.a. jólamatinn, póst og annan varning.
Til stendur að halda árlega skötuveislu á morgun, Þorláksmessu, en fyrirséð er að seinka þurfi veislunni þangað til að ferjan mætir því ekki er hægt að halda skötuveislu án viðeigandi meðlætis. Það skortir meðal annars rófur og kartöflur sem nauðsynlegt er að hafa með skötunni og saltfisknum sem verða á borðum þennan dag.
Á annan í jólum mun kvenfélagið Baugur halda sitt árlega jólaball sem haldið hefur verið nær frá stofnun félagsins sem var 1957. Þar verður dansað í kringum jólatréð í félagsheimilinu Múla, boðið upp á létta hressingu og jólasveinar mæta og gleðja börnin.
Þann 27. desember verður jólamessa í félagsheimilinu þar sem séra Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur og séra Magnús G. Guðmundsson annast. Það er svo einlæg von Grímseyinga að á næsta ári verði messað á jólum í nýrri Miðgarðakirkju. Þess má einnig geta að þótt nú sé myrkasta skammdegið stöðvar það ekki framkvæmdir við nýju kirkjuna en smiðirnir stefna á að mæta milli jóla og nýárs og halda áfram að leggja flísar á þakið, verk sem er um það bil hálfnað.
Áfram er unnið að söfnun fyrir framkvæmdum, kvenfélagið hélt happdrætti fyrir stuttu og söfnuðust þá um 900.000 krónur. Þeir sem vilja leggja verkefninu lið er bent á söfnunarsíðu kirkjunnar sem skoða má hér.