Almennur íbúafundur var haldinn í Grímsey sl. þriðjudag. Á fundinum lét samráðsnefndin af störfum og gáfu nefndarmenn ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Voru þeim þökkuð góð störf í þágu Grímseyjar og ekki síst Garðari Ólasyni, fráfarandi formanni. Í kjölfarið var fyrsta hverfisráð Grímseyjar kosið til eins árs og í samræmi við samþykkt um hverfisráðin í Grímsey og Hrísey.
Aðalmenn í stjórn eru Ragnhildur Hjaltadóttir, Sigrún Þorláksdóttir og Sigurður Bjarnason, varamenn eru Stella Gunnarsdóttir, Magnús Þór Bjarnason og Þorgerður G. Einarsdóttir. Sigurður Bjarnason var kosinn formaður ráðsins og Ragnhildur Hjaltadóttir ritari.
Á íbúafundinum var einnig rædd reynslan af sameiningu Grímseyjar og Akureyrar nú þegar ár er liðið frá sameiningu. Ríkti almenn ánægja á meðal íbúa með sameininguna. Fundinn sátu Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar, og Sigríður Stefánsdóttir, tengiliður Akureyrarbæjar við Grímsey. Að loknum íbúafundi kom nýkjörið hverfisráð saman til síns fyrsta fundar.