Grímseyjardagur í fyrsta sinn

Í ár verður í fyrsta sinn efnt til Grímseyjardags og verður hann haldinn laugardaginn 28. maí. Liður í þessari dagskrá verður sýning á bjargsigi en einnig verður kríueggjaleit, ratleikur, boðið upp á siglingu og fleira. Loks verður botn sleginn í dagskrána með glæsilegu sjávarréttahlaðborði í félagsheimilinu að kvöldi Grímseyjardagsins en allar konurnar í eynni koma þá með sinn sjávarrétt og úr verður hið glæsilegasta veisluhlaðborð.

Ferðamannastraumurinn til Grímseyjar hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum, bæði innlendir sem erlendir ferðamenn. Hægt er að fara til eyjarinnar með tvennum hætti, annaðhvort með ferjunni Sæfara frá Dalvík eða með flugi Flugfélags Íslands frá Akureyri. Margir ferðamenn velja þann kost að hafa sólarhringsviðdvöl í eynni og fara þannig aðra leiðina með ferjunni og hina með flugi.

Fyrir utan þá upplifun sem það er að fara til Grímseyjar, geta státað af því að hafa komið á heimskautsbaug og skoða alla þá skemmtilegu náttúru sem er að sjá í eynni þá er talsverð þjónusta við ferðafólk í Grímsey. Til að mynda veitingastaðurinn Krían, gistiheimilin Gullsól og Básar, minjagripasalan Gallerí Sól sem selur handunnar vörur eftir Grímseyjarkonur og loks er að geta matvöruverslunar og hinnar fínu innisundlaugar Grímseyinga.

Vert er einnig að skoða Grímseyjarkirkju sem byggð var árið 1867 en hún var stækkuð og endurbætt árið 1932. Altaristafla kirkjunnar er gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og er hún eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci.

Og fyrir þá fróðleiksfúsu þá er Grímsey nefnd eftir Grími bónda í Grenivík sem talið er að hafi fyrstur manna reist sér bú í eynni á tólftu öld. Hann var sagður bróðir Kolbeins sem Kolbeinsey er kennt við.

Mikill fjöldi huldufólks er sagður eiga sér bústaði í Grímsey og Nónbrík hýsi kirkju þeirra. Í Prestaskvompu er hellir sem gengur í gegnum Grímsey þvera. Sagan segir að prestur einn hafi farið í rannsóknarferð inn hellinn á báti ásamt 4 mönnum öðrum. Aldrei hafa prestur né fylgdarmenn hans skilað sér til baka.

Dagskrá Grímseyjardagsins:

Föstudagskvöld:
Kráarstemmning á Kríunni - nyrsti bar Íslands (og Akureyrar!).

Laugardagur:
Bjargsig kl. 11.00.
Kríueggjaleit kl. 13.00-14.00.
Sundlaugin og Gallerí Sól opin 14.00-16.00.
Ratleikur kl. 15.30.
Hringferð (ef veður leyfir) kl. 17.00.
Hlaðborð í félagsheimilinu Múla, Grímseyjargersemar, kl. 20.00.
Múli: Bítlaball með Grímseyjarættuðum stuðboltum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan