Grímseyjardagar 2013

Árlegir Grímseyjardagar verða haldnir um næstu helgi, 31. maí til 2. júní. Þá gera Grímseyingar sér glaðan dag, taka á móti gestum úr landi, bjóða upp á hnossgæti úr hafinu og kynna fyrir fólki grímseyska siði og venjur. Á þessum tíma árs er einmitt mjög góður tími til að heimsækja eyjuna og skoða sig þar um. Nú er fuglalífið í miklum blóma og auðvelt að skoða svartfuglinn, m.a. lunda, langvíu og álku, og sólin vermir tún og klappir nánast allan sólarhringinn enda nálgast óðfluga bjartasti tími ársins.

Á dagskrá Grímseyjardaga eru meðal annars ratleikir, bjargsig, fjöldasöngur út við nyrsta haf, grill við höfnina, sjávarréttarkvöld og dansleikur í Múla. Allar nánari upplýsingar um einstaka dagskrárliði og tímasetningar má sjá á heimasíðu Akureyrarstofu.

Flogið er fram og tilbaka til Grímseyjar þriðjudag, föstudag, laugardag og sunnudag. Frá Akureyri kl. 13.15 og frá Grímsey kl. 14.55. Sérstakt aukaflug verður á laugardeginum þegar Grímseyjardagarnir standa yfir og verður flogið frá Akureyri kl. 10.00 og frá Grímsey kl. 11.00. Ferjan Sæfari er með áætlun milli Dalvíkur og Grímseyjar allt árið. Silgt er milli Dalvíkur og Grímseyjar þrisvar sinnum í viku (fram og tilbaka) á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Siglingin tekur um 3 klst. hvora leið og tekur ferjan alls um 108 farþega. Dalvík er um 40 km fyrir norðan Akureyri og er um 30 mín akstur þangar.

Hægt er að bóka gistingu á gistiheimilinu Básum í síma 467 3103 eða á basar@gistiheimilidbasar.is og hjá Gallerí Gullsól í síma 467 3190 eða á gullsol@visir.is. Einnig er hægt að gista á tjaldstæði við félagsheimilið Múla.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan