Sögulegur viðburður átti sér stað í gær þegar Garðar Alfreðsson flaug vél frá félaginu Circle Air frá Akureyri til Grímseyjar og lenti við heimskautsbaug. Flugið var sögulegt því Garðar er Grímseyingur í húð og hár og mun vera fyrsti grímseyski flugstjórinn sem flýgur þessa leið innan sveitarfélagsins Akureyrarkaupstaðar.
Með í för voru fjórir farþegar frá Hollandi sem voru alsælir með ferðina til Grímseyjar. Úti í eyju smökkuðu þeir meðal annars lunda og saltfisk, fengu Heimskautaviðurkenningu og var síðan flogið aftur til Akureyrar undir léttu spjalli Garðars.
Circle Air er nýtt fyrirtæki í ferðaþjónustu með höfuðstöðvar á Akureyri.