Almenn óánægja ríkir meðal íbúa í Grímsey vegna þjónustu Strætó. Íbúar telja skort á almenningssamgöngum til og frá Grímseyjarferjunni Sæfara hafa áhrif á ferðaþjónustu í eynni.
Strætó kemur til Dalvíkur á morgnana, tíu mínútum fyrir brottför ferjunnar, en stoppar í um það bil 10 mínútna göngufjarlægð frá bryggjunni. Þetta veldur því að fólk missir oft af ferjunni. Engar almenningssamgöngur sinna ferðum frá ferjunni.
Ferðamenn hafa hætt við að koma til eyjarinnar
Anna María Sigvaldadóttir, íbúi í Grímsey, segir ferðamenn missi aðallega af ferjunni, því íbúar notist ekki við strætó. „Grímseyingar reyna ekki einu sinni að nota þetta þar sem það er ekki hægt að stóla á neinar ferðir, þannig að það er frekar mikil óánægja með þetta almennt," segir hún.
Anna María segir samgöngur til og frá ferjunni vera lágmarksþjónustu. Hún segist ítrekað hafa fengið fyrirspurnir ferðamanna um hvernig þeir komist til og frá Dalvík og það hafi stoppað fólk að það séu engar samgöngur frá Dalvík þegar ferjan kemur þangað að kvöldi. Ferðaþjónusta er Grímseyingum mikilvæg yfir sumartímann og segir Anna því mikið í húfi.
Ekki til fjármagn til að sinna þjónustunni
Eyþing, landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi, sér um rekstur Strætó millli byggðakjarna. Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, segir þetta leiðindamál, en það sé það sé einfaldlega ekki til fjármagn til að sinna þessari þjónustu. Samingur um reksturinn fellur úr gildi um áramót og segir Pétur að ekkert verði gert í sumar en Pétur segir að það sé í höndum ríkisvaldsins að samgöngur til og frá ferjunni séu í lagi.
Frétt af vef RÚV http://www.ruv.is/frett/grimseyingar-osattir-med-straeto-0