Grímseyjardagurinn var haldinn laugardaginn 28. maí og tókst í alla staði vel. Kalt var í veðri en eyjarskeggjar og gestir þeirra létu það að sjálfsögðu ekki á sig fá og klæddu sig bara vel. Sýnt var bjargsig og fengu gestir að spreyta sig, farið var í róður og margt fleira sér til gamans gert.
Sigurður Ingi Bjarnason seig eftir eggjum og hafði til liðs við sig bróður sinn, Magnús, og föður sinn, Bjarna Magnússon. Þegar upp var komið saup Bjarni úr eggjum við mikinn fögnuð viðstaddra. Tveir gestir fengu að prófa. Þeir fóru báðir niður og vakti það lukku því mjög erfitt er að hafa sig niður fyrir brúnina og ekki á færi nema þeirra allra huguðustu og ekki gengur að vera lofthræddur.
Boðið var upp á veiðiferð á Þorleifi EA. Dregin var ein netatrossa. Báturinn var fullur af fólki sem hafði gaman af að sjá aðferðirnar við veiðarnar. Ekki fengust margir fiskar en samt margar tegundir og hafði fólk gaman af.
Ratleikur var síðan á boðstólum. Skipt var í sjö lið með 7-10 manns í hverju liði. Kepptist fólkið við að leysa þrautirnar sem voru vítt og breitt um byggðina. Síðan endaði leikurinn í skemmtilegum þrautum og kappi milli liðanna í miklu þýfi.
Um kvöldið var svo sjávarréttahlaðborð. Allar konur eyjarinnnar leggja til fiskrétti. Þetta var allt mjög gómsætt. Á eftir voru bítlatónleikar með The Backstabbing Beatles úr Grindavík. Þeir eiga rætur að rekja til Grímseyjar því móðir þeirra er þaðan. Sveinsstaðabandið stóð svo fyrir dansleik sem stóð fram undir morgun.
Loks má geta að hin mikla hannyrðakona Hulda Reykjalín Víkingsdóttir leyfði gestum og gangandi að njóta afraksturs vinnu sinnar með myndarlegri sýningu í félagsheimilinu Múla.
Myndirnar að ofan tók Sunna Sæmundsdóttir.