Fjörugur íbúafundur í Gímsey

Í gærkvöldi var haldinn í Grímsey íbúafundur með bæjarstjóra, samráðsnefnd um málefni Grímseyjar og nokkrum stjórnendum Akureyrarbæjar í félagsheimilinu Múla. Framsögur fluttu Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri, Sigríður Stefánsdóttir, verkefnastjóri og tengiliður við Grímsey, og Helgi Már Pálsson, deildarstjóri framkvæmdadeildar bæjarins. Fundurinn var fjölsóttur og umræður fjörugar. Eftir framsögur voru bornar fram fjölmargar spurningar til bæjarstjóra og annarra fulltrúa bæjarins.

Það mál sem helst brennur á Grímseyingum eru ferjusamgöngur við eyjuna og kostnaður við ferðir og flutning en boðuð hefur verið fækkun ferða úr þremur í tvær á viku. Grímseyingar benda á nauðsyn þess að koma fiski ferskum á markað og að fiskveiðar séu undirstöðuatvinnugrein í eyjunni og grundvöllur búsetu þar. Tíðni ferða og verðlagning skipta einnig miklu máli fyrir íbúana sjálfa og ferðamannaþjónustu.

Kom fram að líta megi á þessa sjóleið eins og þjóðveg 1 á fastalandinu. Grímseyingar hafa einnig borið verðlagningu saman við verðskrá Herjólfs til Vestmannaeyja en á þeirri leið eru fargjöld og flutningsgjöld lægri en með Grímseyjarferjunni Sæfara.

Ferjusiglingarnar eru reknar af Vegagerðinni og á ábyrgð samgönguráðuneytis og því ekki á valdi bæjarstjórnar að hlutast til um þær. Hins vegar hét bæjarstjóri liðsinni sínu og stuðningi í viðræðum við ríkisvaldið.

Ýmis fleiri mál og spurningar komu fram, svo sem vegna fyrirhugaðra breytinga á sorphirðu og förgun, væntanlegra kosninga um hunda- og kattahald í Grímsey, viðhald húsa og gatna, umferðarhraða og ferðaþjónustu.

Myndirnar að neðan voru teknar á fundinum í gærkvöldi.

Grimsey_ibuafundur_7apr10_2

Grimsey_ibuafundur_7april10

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan