Fagnað í Grímsey í dag

Messa í Miðgarðakirkju 10. nóvember 2024. 
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Messa í Miðgarðakirkju 10. nóvember 2024.
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir

Fiske-afmælinu er fagnað í Grímsey í dag. Þessi dagur er ávallt stór hátíðarstund og mikilvægur í huga íbúa eyjarinnar. Að vanda munu íbúar fagna deginum með samkomu í félagsheimilinu Múla. Boðið verður upp á girnilegt kvöldverðarhlaðborð kl. 18.00 og skemmtun í framhaldinu. Búist er við að um 30 gestum.

Í tilefni af afmælinu var haldin messa í nýju Miðgarðakirkjunni í gær. Oddur Bjarni Þorkelsson, sóknarprestur í Dalvíkurprestakalli, sá um guðþjónustuna og lék Þórður Sigurðarson undir á harmonikku. Allir sem voru staddir í eyjunni mættu. Vinna við smíði kirkjunnar gengur vel. Hún er að verða tilbúin að utan og stendur til að klára hana að innan í vetur.

Fiskehátíð er haldin í Grímsey 11. nóvember á hverju ári til að minnast afmælis Daniels Willard Fiske (1831-1904) sem var velgjörðmaður samfélagsins en steig þó aldrei fæti sínum á land í Grímsey. Hann var bandarískur prófessor við Cornell háskóla í New York fylki í Bandaríkjunum. Hann lærði íslensku þegar hann var í námi í Danmörku 1849 og safnaði öllu íslensku efni sem til var á prenti auk ljósmynda af Íslandi. Stórt safn íslenskra bóka og ljósmynda er nú varðveitt í Cornell. Fiske sigldi hringinn í kringum landið 1879 og sá þá Grímsey tilsýndar og heillaðist af dugnaði og menningaráhuga íbúanna. Grímseyingar voru góðir skákmenn og þar sem Fiske var mikill áhugamaður um skák komst hann í bréfasamband við tvo menn í Grímsey. Þar með hófst vináttusamband hans við Grímseyinga sem varði meðan hann lifði. Árið 1901 færði Fiske Grímseyingum stórt bókasafn sem hann nefndi Eyjarbókasafnið. Það er nú varðveitt í félagsheimilinu í upprunalegum bókaskápum.

Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Grímseyingum veglegan peningasjóð, Grímseyjarsjóð Willard Fiske, til að endurbæta húsakostinn og bæta mannlíf í eyjunni og í þakklætisskyni voru nokkrir drengir í Grímsey skírðir eftir honum. Í eyjunni er minnismerki um Fiske er eftir Gunnar Árnason myndhöggvara og var gefið af Kiwanisklúbbnum Grími. Það var afhjúpað þann 11. nóvember 1998.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan