Hollenska listakonan Astrid Nobel dvaldist í Grímsey á dögunum en þangað kom hún í fyrsta sinn fyrir þremur árum síðan. Þá tók hún margar ljósmyndir af sjónum sem höfðu mikil áhrif á hana og hennar listsköpun. “Í Grímsey er einfaldlega dásamlegt að vera og þótt að veðrið hafi ekki verið upp á sitt allra besta þá bætti kyrrðin það sannarlega upp,” segir Astrid.
“Ég kom til þess að vinna við skúlptúra og teikningar í ró og næði og var ekki einu sinni tengd internetinu en sendi þó heim þrjú sms skilaboð til þess að láta vini og ættingja vita af mér. Kærastinn minn, Thys de Vlieger, kom svo til mín þegar 10 dagar voru liðnir af dvölinni en hann er tónlistar- og kvikmyndagerðarmaður sem einnig hefur áður komið til Grímseyjar til þess að sækja sér myndefni og andagift. Það er svo gott að koma til Grímseyjar því okkur finnst alltof mikil læti og mannmergð í Hollandi. Í rauninni viljum við bæði búa á Íslandi og þá helst í Grímsey, segir listakonan Astrid Nobel með bros á vör.”