Sífellt fleiri ferðamenn leggja leið sína til Grímseyjar og eru helstu ástæðurnar heimskautsbaugurinn, lundabyggðin og sólarlagið. Í sumum tilvikum er erindið þó annað. Bandaríkjamennirnir Virginia Mahacek og Harold Schamback voru búin að stefna að Íslandsferð lengi og þegar stundin loksins rann upp, ákváðu þau að láta pússa sig saman í leiðinni.
Þau vildu gifta sig á sumarsólstöðum, við heimskautsbauginn og þá var Grímsey sjálfsagður kostur. Ferðaskrifstofa Nonna á Akureyri skipulagði bæði brúðkaupið og brúðkaupsferðina um Ísland eftir athöfnina og voru brúðhjónin hæstánægð með bæði ferðina og skipulagið.