Norðurheimskautsbaugshlaup TVG-Zimsen fer fram í Grímsey á morgun, laugardag, í fyrsta sinn. Hlaupið hefst kl. 11.00 við félagsheimilið Múla og verða tvær leiðir í boði. Annars vegar verður hlaupinn einn hringur í kringum Grímsey en hann telur tæpa tólf kílómetra og hins vegar verða hlaupnir tveir hringir í kringum eyna, sem teljast þá rúmlega hálfmaraþon. Þetta er í fyrsta sinn sem efnt er til almenningshlaups í Grímsey og aldrei áður hefur verið hlaupið jafn norðarlega hér á landi.
Hægt er að komast til Grímseyjar með ferjunni Sæfara og með flugi með Norlandair og Flugfélagi Íslands.