Þann 8 mars kl. 17:00 á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna verður opnuð sýningin Mannát og femínismi: Skessur sem éta karla á Amtsbókasafninu. Um er að ræða veggspjaldasýningu um mannát í íslenskum þjóðsögum. Sýningin mun standa út apríl.
ATH. Fluttur verður FYRIRLESTUR um sama efni í tilefni opnunar kl. 17:10.
Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur af Ströndum hefur undanfarið rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Mannát birtist einkum í íslenskum tröllasögum, þar sem átök kynjanna leika stórt hlutverk. Þar segir oftast frá tröllskessum sem leggja sér karlmenn til munns og velta má fyrir sér hvað sagnirnar geta sagt okkur um samfélagið sem þær tilheyrðu.
Í rannsóknum sínum fléttar Dagrún Ósk saman þjóðsögunum og nýrri hugmyndum um femínisma, niðurstöður sínar setur hún fram á veggspjöldum, í samstarfi við listakonuna Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur sem teiknaði myndir fyrir sýninguna og þá sem hér fylgir.
Í tilefni opnunarinnar mun Dagrún koma á staðinn og segja stuttlega frá verkefninu og mannáti í íslenskum þjóðsögum. Mannát birtist okkur víða, til dæmis í goðsögum, ævintýrum, kvikmyndum, þjóðsögum, bröndurum, nútíma flökkusögum og ótal fleiri stöðum.
Í þjóðsögunum éta illar tröllskessur mennska karlmenn, útilegumenn bjóða saklausum bændum upp á mannakjöts stöppur og víkingar eru étnir hver á fætur öðrum í fjarlægu landi.
Í mannátinu felst meðal annars aðgreining ólíkra hópa. Þar birtast átök milli karla og kvenna, kristni og heiðni, siðmenningar og náttúru og okkar og hinna. Hvað eiga þessar sögur sameiginlegt og hvað geta þær sagt okkur um samfélagið sem þær eru sprottnar úr?
Boðið verður upp á kaffi og konfekt og er aðgangur ókeypis.
Verið hjartanlega velkomin!