Bjartsýnispokar - gjöf sem gefur

Amtsbókasafninu barst nýlega óvæntur liðsauki í baráttunni gegn plastinu.
Amtsbókasafninu barst nýlega óvæntur liðsauki í baráttunni gegn plastinu.

Amtsbókasafnið lætur sig umhverfismál varða og vill gjarnan draga úr notkun á plastpokum. Undanfarið hefur safnið því meðal annars brugðið á það ráð að auglýsa eftir pokum frá almenningi með ágætum árangri. Nýlega barst safninu þó óvæntur liðsauki í baráttunni gegn plastinu þegar hópur vaskra kvenna í Eyjafirði, Laugalandsskvísur eins og þær kalla sig, bauðst til að sauma taupoka fyrir safnið, gestum þess til handa. 

Pokarnir eru vandaðir að gerð. Unnir úr gömlum en slitsterkum efnum sem eitt sinn átti að nota í gardínur. Böndin eru vandlega saumuð á því pokunum er ætlað að endast. Laugalandsskvísur kalla þá gjarnan bjartsýnispoka, því þær vona að pokarnir veiti öðrum innblástur.

Amtsbókasafnið þakkar Laugalandsskvísum óendanlega mikið fyrir framtakið, fyrir hönd safnsins, samfélagsins og náttúrunnar! 

Nú eru bjartsýnispokarnir komnir í hús og hanga í afgreiðslunni, tilbúnir til notkunar. Safngestir geta því gripið vandaðan bjartsýnispoka undir bækurnar og annað hvort haldið áfram að nota pokann eða skilað honum aftur á safnið þegar bókunum er skilað. Aðalatriðið er að pokarnir verði notaðir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan