Í þessum fyrsta heilsupistil Heilsuverndar á nýju ári eru gefin 5 góð ráð sem hjálpa okkur að koma í veg fyrir veikindi.
Fimm ráð til að koma í veg fyrir veikindi
Ónæmiskerfið þjónar mikilvægu hlutverki í að verja okkur gegn sýkingum. Þegar það er veiklað eru meiri líkur á veikindum og því mikilvægt að huga að þáttum sem styrkja það.
Handþvottur
Sendu þessa sýkla beint í niðurfallið áður en þeir valda hugsanlegri sýkingu. Notað skal alltaf sápu og þvo hendur í að minnsta kosti 20 sekúndur undir heitu eða volgu vatni. Með því að huga vel að handþvotti getur þú minnkað líkur á að smitast á magapest um 23-40% sem og líkur á kvefi eða sýkingu í öndunarfærum um 16-21%.
D-Vítamín
Sólarvítamínið og hormónið D-vítamín þjónar mikilvægum tilgangi í líkamanum. Það styrkir bein og tennur og bætir ónæmiskerfið. Það verndar okkur gegn sjúkdómum, bætir skap og vellíðan sem og hjálpar til við þyngdarstjórnun. Vítamínið myndast í húðinni fyrir tilstilli sólarljóss en við fáum það einnig í fæðunni eins og feitum fiski, lýsi og eggjum.
Svefn
Flestir fullorðnir þurfa 7-9 klukkustunda nætursvefn. Góður svefn minnkar kvíða, vanlíðan og stress. Til að tryggja betri svefn er mælt með að svefnherbergið sé svalt, dimmt og hreint. Mikilvægt er að lágmarka skjánotkun á kvöldin og forðast að taka vinnuna inn í svefnherbergið.
Streitustjórnun
Streituvaldar eru allt í kringum okkur og er það okkar hlutverk að vakta þá og huga að eigin heilsu. Settu þér mörk, taktu ekki að þér meira en þú þolir, sinntu áhugamálum þínum, hlustaðu og taktu mark á tilfinningum þínum og líðan, settu raunhæfar kröfur til sjálfs þíns og gefðu þér tíma með fólki sem byggir þig upp og þér líður vel í kringum.
Hreyfing
Líkaminn okkar er hannaður til að vera á hreyfingu. Gott að miða við 2,5 til 5 klukkustundir á viku í rösklega hreyfingu (t.d ganga, hjóla, synda, heimilisþrif, o.s.frv.) og 1 til 2,5 klukkustundir af kröftugri hreyfingu (hlaup, fjallganga, lyftingar, fótbolti, lotuþjálfun o.s.frv).
Gangi ykkur vel!
Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur