Vindmyllan

Árið 1982 lét Raunvísindastofnun Háskólans setja upp vindmyllu í Grímsey. Í Grímsey er hvorki náttúruleg uppspretta af heitu vatni né önnur náttúruvæn leið til að framleiða rafmagn, og því þarf að nota dísilrafstöð til að framleiða rafmagn og hita vatnið í eyjunni.

Vindmyllunni var ætlað að framleiða hita með svokallaðri vatnsbremsu, og átti hún í um 7 vindstigum að geta framleitt ½ tonn af 70° heitu vatni á klukkustund.
Grímseyingar reistu hús undir mylluna, 14 tonna vatnsgeymi, og lögðu tvöfaldar vatnslagnir í tvö syðstu húsin í bænum. Ofan á húsið var reist 10 metra hátt mastur sem Vélsmiðjan Oddi á Akureyri smíðaði.

Verkefnið var tilraunaverkefni, og ef tilraunin heppnaðist og myllan framleiddi nægt heitt vatn fyrir húsin tvö, var fyrirhugað að reisa aðra vindmyllu(-r) til að framleiða heitt vatn fyrir alla Grímseyinga.

Tilraunin mistókst þar sem vindmyllan bilaði stuttu eftir að hún var byggð. Hægt er að sjá það sem eftir stendur af vindmyllunni uppi á hæð á suðvesturhluta eyjunnar.

Sjá greinar um málið hér

Tíminn 30. mars 1980
Þjóðviljinn 17. júlí 1980
Dagur 12. ágúst 1982
Morgunblaðið 3. september 1982
NT 21. ágúst 1984
Dagur 12. ágúst 1985
Dagur 19. mars 1986
Fréttablaðið 21. ágúst 2004