Sjómannadeginum var fagnað í Grímsey að venju í gær og á dagskrá var meðal annars sjómannadagsmessa og kaffisamsæti í félagsheimilinu Múla á vegum kvenfélagsins Baugs. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur var einnig kvaddur á deginum, en hann hefur þjónað Grímsey í 21 ár og messan í gær var hans síðasta í þjónustu við eyjarskeggja.
Þoka lá yfir eyjunni að morgni dags og seinkaði hátíðarhöldunum því nokkuð þar sem presturinn kom með flugi frá Akureyri. Það kom þó ekki að sök og tóku alls um 70 manns þátt í hátíðarhöldunum að þessu sinni.
Dagskránni lauk við höfnina þar sem boðið var upp á bátsferðir á sodíak-gúmmíbát og grillaðar veitingar á vegum björgunarsveitarinnar í Grímsey.