Eins og sköpulag á eyju (fugl, steinn, manneskja)

Floortje við opnun sýningarinnar.
Mynd: Anne-Lise Stangenes
Floortje við opnun sýningarinnar.
Mynd: Anne-Lise Stangenes

Í byrjun sumars vann hollenska listakonan og leiðsögumaðurinn Floortje Zonneveld að sjónrænu listaverki (e. visual art) í Grímsey og setti upp sýningu á afrakstri vinnunnar í lok júní undir heitinu "Like a shape on an island (bird, rock, person) / Eins og sköpulag á eyju (fugl, steinn, manneskja)."

Floortje hefur búið á eyjum víðsvegar á Norðurslóðum, svo sem í Noregi og Færeyjum, Grænlandi, á Svalbarða, og nú síðast í Grímsey. Þar vann hún að verkefni sem tengist list, menningu og ferðaþjónustu með styrk frá Evrópusambandinu en verkefnið var skipulagt af Goethe stofnuninni.

Floortje er einkar áhugasöm um staðbundnar sögur og staði sem tengja fólk við eyjarnar. Í verkum sínum nýtir hún listina, náttúruna (sem fyrirbæri), vísindi og gagnvirkni, til að vekja forvitni og breiða út staðbundna þekkingu, um leið og hún leitast við að ná til fólks í samfélaginu og tengja það verkefnunum.

Þegar Floortje kom til Grímseyjar í maí heillaðist hún af því hvernig fólk, bæði heimafólk og gestir, skynjaði landslag eyjarinnar; landslag sem einkennist af grösugum þúfum, brekkum, þverhníptum hamraveggjum og stórskornum bjargbrúnum. Hún uppgötvaði einnig að margskonar hefðir og sögur tengjast austurhluta eyjarinnar sem fæstir þekkja til, svæði sem einkennist af allt að 105 metra háum björgum.

Sýning Floortje er byggð á ljósmyndum úr Grímsey eftir hana sjálfa, ásamt gömlum ljósmyndum úr albúmum heimamanna og af Minjasafninu á Akureyri, auk texta á íslensku og ensku.

Sýningin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta má sjá ljósmyndir af landslagi og úr samfélagi Grímseyjar fyrri ára. Þar leitast listakonan við að sýna hin fjölbreyttu form og einkenni mismunandi staða í Grímsey, sem tíminn hefur lítið eða ekkert unnið á. Annar hluti sýningarinnar sýnir kort af austurhluta eyjarinnar þar sem Floortje hefur merkt inn staði sem tengjast sögum sem íbúar hafa sagt henni. Hvert bjarg, brekka, hellir, fuglabyggð og strandlengja hefur sína sögu að segja. Þriðji hlutinn byggir á ljósmyndum þar sem Floortje veltir fyrir sér hvernig gestir og heimamenn skynja landslagið sem þeir hafa undir fótum sér. Hvaða tilfinningar og hvaða spurningar vakna þegar fólk hreyfir sig í vel þekktu eða í nýju landslagi?

Verkið er lifandi og því er ætlað að vera tilefni til þess að skiptast á sögum, spyrja spurninga og eiga samtal. Floortje vonar að listrænar rannsóknir hennar í Grímsey sýni fram á það hlutverk sem listir og skapandi menning getur haft á samfélagslega þróun og sjálfbæra ferðaþjónustu á Norðurslóðum.

Sýning Floortje var opnuð í lok júní við veitingahúsið Kríuna í Grímsey og stendur uppi þar til hún verður veðri og vindum að bráð.

Hér að neðan má sjá myndir frá sýningunni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan