Á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar er liðurinn Akureyringar - þar sem ýmsir íbúar bæjarins eru kynntir, verkefni sem lá í dvala um tveggja ára skeið en hefur nú verið endurvakið og er nú komið að þriðja íbúanum sem að þessu sinni er Grímseyingur.
Halla Ingólfsdóttir hefur verið með fasta búsetu í Grímsey síðustu þrjú árin en hefur verið tengd eyjunni í rúm 20 ár. Halla, sem rekur ferðaskrifstofuna Arctic Trip í Grímsey og er eftirlitsmaður RARIK í eyjunni, fæddist í Reykjavík en eyddi fyrstu fimm árunum sínum í Mjólkárvirkjun fyrir vestan. Eftir átta ár á Hvolsvelli hefur hún búið í Eyjafirði. „Ætli það megi ekki segja að ég hafi búið á flestum fámennum stöðum fjarðarins. Ég bjó á Svalbarðseyri, Hauganesi, Árskógsandi, og núna í Grímsey, sem er náttúrulega besti staður í heimi.“
Hún segir nóg um að vera í Grímsey. „Við erum með mjög góða líkamsræktarstöð, sundlaug, heitan og kaldan pott, frábærar gönguleiðir, svakalega góðan veitingastað og mjög gott internet. Við erum að gera nákvæmlega sömu hlutina og þau sem búa í landi, bara í fámennara samfélagi. Þetta er ekkert fangelsi, og við förum reglulega í land. Ég á líka íbúð á Akureyri en ég vel að vera hér. Mitt líf og mín vinna eru hér. Hér líður mér best enda fæ ég mína orku og kraft úr þessari eyju.“
Hún segist jákvæð fyrir framtíð eyjunnar. „Ég hef haft áhyggjur, en nú finnst mér eins og það sé farið að birta til. Okkur fækkaði hratt á tímabili, en ég vona að okkur sé að takast að snúa þróuninni við,“ segir hún og bætir við að helstu áskoranirnar séu samgöngumálin. „Góðar og tryggar samgöngur eru forsendan fyrir öllu hér, og við verðum að fá nýja almennilega ferju því flugið er ekki alltaf áreiðanlegt vegna veðurskilyrða. Það er erfitt að fá hús til leigu hérna, og eftirspurnin eftir húsum fer vaxandi. Það er mikill misskilningur að halda að Grímsey geti bara orðið að sumarhúsabyggð, því ef svo færi yrðu ekki reglulegar ferðir hingað og ekkert viðhald. Grímsey er ekkert í leiðinni, eins og t.d. Flatey á Breiðafirði. Þú átt ekkert leið hér framhjá, nema þú sért að halda út á miðin kannski.“
En af hverju Grímsey? „Ég heillaðist af náttúrunni, náttúruöflunum og mannlífinu. Ég lýsi oft lífinu hér eins og að vera á frystitogara. Við erum hér lengst úti í hafi í nokkurs konar vernduðu umhverfi,“ segir hún og neitar því, hlæjandi, að hafa elt ástina út í eyju. „Ég fæ þessa spurningu oft en svarið er nei. Ég féll fyrir eyjunni, ekki einhverjum karli. Ég hef ástríðu fyrir Grímsey og ætla að berjast fyrir því að þessi eyja fari ekki í eyði.“
Halla er tiltölulega nýkomin heim úr fimm vikna dvöl á Bali og segir draum sinn að geta dvalið þar hluta vetrarins, en restina af árinu í Grímsey. „Ég get alveg hugsað mér að verða gömul hér, en mér þykir líka vænt um Akureyri og gæti vel hugsað mér að búa þar. Mamma býr í Reykjavík og skilur ekki hvernig tvær dætur hennar velja að búa hér, en ég skil ekki hvernig hún getur búið í Reykjavík. Auðvitað þarftu að hafa ákveðna aðlögunarhæfni til að búa hér. Við erum ekkert alltaf öll sammála, en við erum þó sammála um að vilja vera hér og hjálpumst öll að til að láta þetta ganga. Núna er til að mynda stór hluti Grímeyinga að fara til Færeyja, en þar sem ég fer ekki, tek ég að mér mörg hlutverk á meðan. Þannig hjálpumst við að. Þetta er bara eins og ein stór fjölskylda, og líkt og með systkini, þá semur okkur misvel, en ég elska þau öll.“