Í gær var listaverkið ORBIS et GLOBUS sett niður á heimskautsbauginn í Grímsey en hann er sem kunnugt er á stöðugri hreyfingu á milli ára.
Verkið var vígt í Grímsey árið 2017 og er kúla sem er 3 metar í þvermál og um 8 tonn.
Höfundar verksins eru Kristinn E. Hrafnsson, listamaður og Steve Christer, arkitekt hjá Studio Granda. Hugmyndin á bak við verkið er að kúlan færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsins þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.
Staðsetning verksins í ár er uppi á háeyjunni þar sem gott útsýni er norður á nyrsta hluta eyjarinnar – hinn svokallaða Fót og einnig niður í Básavíkina – tilkomumikil fuglabjörg sem iða af lífi allt árið.
Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Anne-Lise Stangenes tók við flutninginn á verkinu í gær.