Brothættar byggðir

Glæðum Grímsey

Grímsey liggur á heimskautsbaug, 41 km frá norðurströnd landsins. Hún er 5,3 ferkílómetrar að flatarmáli og 5,5 km að lengd. Eyjan er mynduð úr blágrýti og hallar frá austri til vesturs. Bjargbrúnin er hæst 105 m yfir sjó, á austanverðri eynni. Byggðin er vestan til þar sem eyjan er lægri. Grímseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarkaupstað árið 2009.

Á vefnum akureyri.is er þessa lýsingu að finna:

Byggð hefur verið í Grímsey frá landnámi og var eyjan jafnan talin matarkista vegna hins gjöfula lífríkis sem þar er að finna. Þjóðsaga tengir nafn eyjarinnar við landnámsmanninn Grím frá Sogni í Noregi en aðrar skýringar kunna einnig að vera á nafninu sem á sér samsvaranir m.a. í Noregi og á Bretlandseyjum. Eyjan var til forna í eigu Munkaþverár og Möðruvallaklaustra. Voru bændur í eyjunni leiguliðar og greiddu landsskuldina í skreið til klaustranna.

Undanfarna áratugi var fjöldi íbúa lengst af á bilinu 90 – 100 en eyjarskeggjum hefur fækkað allra síðustu ár. Í upphafi árs 2016 voru skráðir 76 íbúar í Grímsey.

Sjávarútvegur er grundvöllur búsetu og aðal atvinnuvegur Grímseyinga svo sem verið hefur frá upphafi byggðar í eyjunni. Í Grímsey er verslun, tvö gistiheimili, veitingastaður, handverkshús, kaffihús, sundlaug, félagsheimili og tjaldsvæði. Þjónusta við ferðamenn er vaxandi. Fastar flugferðir eru þangað frá Akureyri og skipsferðir með ferju frá Dalvík. Auk þess hefur halaskoðunarfyrirtæki boðið upp á ferðir frá Akureyri til Grímseyjar sumarið 2016.

Samtal við íbúana í verkefnum Brothættra byggða hefjast alla jafna með íbúaþingi. Í Grímsey var haldið afar vel sótt íbúaþingi í byrjun maí 2016, en fundir verkefnisstjórnar hófust mun fyrr, eða haustið 2015. Á íbúaþinginu völdu íbúar nafnið „Glæðum Grímsey“ fyrir verkefnið.

Alls voru 23 málaflokkar til umræðu á íbúaþinginu. Þar vó þyngst umræða umsjávarútveg, að auðvelda kynslóðaskipti í greininni með því að fá aflamark fyrir ungt fólk og að styrkja þær atvinnugreinar sem fyrir eru. Þá skoraði einnig hátt í mikilvægisröðinni umræðan um það hvernig fjölga megi íbúum og fá ungt fólk til að búa í Grímsey. Sjá má samantekt um niðurstöður íbúaþingsins hér.

Í nóvember 2015 var Helga Íris Ingólfsdóttir ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið í Hrísey og hún tók svo einnig við verkefninu í Grímsey í ársbyrjun 2016. Helga Íris hefur, ásamt verkefnisstjórninni, unnið að mótun framtíðarsýnar og markmiða fyrir verkefnið og verður afraksturinn kynntur íbúum nú með haustinu þannig að hægt sé að ganga frá lokagerð. Starfað verður eftir þeirri stefnumótun út verkefnistímann. Í mars 2020 tók Karen Nótt Halldórsdóttir við verkefnastjórn eftir Helgu Írisi og í byrjun ágúst 2021 tók Arna Björg Bjarnadóttir við verkefninu en það hefur verið framlengt til 2022. Karen Nótt Halldórsdóttir mun þó áfram vera innan handar sem fulltrúi íbúa í verkefnisstjórn.

Árlega eru veittir verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna í  þeim byggðarlögum sem taka þátt. Árið 2016 var fjórum milljónum króna ráðstafað vegna fjarskipta í Grímsey, eftir stendur ein milljón sem bætist við úthlutun ársins 2017.

Í verkefnisstjórn sitja: Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar, Baldvin Valdemarsson, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Gunnar Gíslason, f.h. Eyþings, Jóhannes Henningsson og Guðrún Inga Hannesdóttir f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Eva Pandora Baldursdóttir frá Byggðastofnun. 

Samantekt um niðurstöður íbúaþingsins.

Umsóknareyðublað um styrk í sjóð byggðaverkefnisins Glæðum Grímsey

Glæðum Grímsey Markmið og framtíðarsýn

 

Síðast uppfært 07. september 2021