Heimskautsbaugurinn

Heimskautsbaugurinn sker þvert í gegnum Grímsey frá vestri til austurs um norðurhluta eyjarinnar.

Heimskautsbaugar heita baugar sem dregnir eru nálægt 66,5° norðlægrar og suðlægrar breiddar. Þeir afmarka nokkurn veginn þau svæði við heimskaut jarðar þar sem sólin getur horfið undir sjónbaug í heilan sólarhring eða lengur að vetri (vetrarsólstöðum 21. desember), en getur þá jafnframt verið á lofti heilan sólarhring eða lengur að sumri (sumarsólstöðum um 21.júní), þannig að sjá megi miðnætursól. Staðsetning heimskautabaugsins er ekki föst og er árleg meðalhreyfing heimskautsbaugsins um 14,5 metar. Á mörgum stöðum er valið að staðsetja tákn um heimskautsbauginn við 66°33'N. Á Grímsey er táknið "Brúin og vegpresturinn" við 66°33,3'N, rétt norðan við gistiheimilið Bása sem er við flugstöðina og nýja táknið (2017) Hringur og kúla / Orbis et Globus við norðurenda eyjarinnar við 66°33,916'N.

Til að staðsetja heimskautsbaugana með nákvæmni, verður að gæta þess að breidd þeirra fylgir horninu sem möndull jarðar myndar við jarðbrautarflötinn. Þetta horn tekur hægum breytingum og ýmist vex eða minnkar. Aðalsveiflan, sem kölluð er pólvelta (precession), tekur um 40 þúsun ár, þannig að tíminn sem líður frá lágmarki til hámarks er um það bil 20 þúsund ár. Á síðustu fimm milljón árum hefur hornið mest  orðið 68,0° en minnst 65,5°. Sem stendur vex hornið um 0,01° á hverri öld. Styttri sveiflur heimskautsbaugsins stafa af svokallaðri pólriðu (nutation) sem tunglið veldur, en sveiflutímihennar er 18,6 ár og sveiflustærðin um það bil 570 metrar. Breiddarmínútan í Grímsey er 1859 metrar. Árleg meðalhreyfing heimskautsbaugsins er 14,5 metri eða 0,0078 bogamínútur.
Þótt heimskautsbaugurinn hafi áður fyrr snert nyrsta odda Íslands, gerir hann það ekki lengur. Útreikningar sýna að baugurinn hafi fyrst gengið inn á Grímey árið 1717 og verið inni á henni frá 1750. Hann hefur færst skrykkjótt norður á við um 1,5 km á öld að meðaltali og mun fara norður fyrir eyna árin 2031-2038 og skilja endanlega við hana árið 2047 eða því sem næst.
Hnattstaða norðurodda Grímseyjar: 66°33,973'N
Hnattstaða suðurodda Grímseyjar: 66°31,574'N

Byggt á útreikningum og skrifum Þorsteins Sæmundssonar.


Göngutúr frá höfninni að heimskautsbaugnum er um 3.7 km og frá flugvellinum að baugnum um 2.5 km. Reikna má með um 3 klst. í gönguna (fram og tilbaka). Sjá nánar um heimskautsbaugstáknið hér.

Upplýsingar um staðsetningu og eðli heimskautsbaugsins má finna hér