Bæjarstjórn

3510. fundur 26. apríl 2022 kl. 16:00 - 16:30 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Andri Teitsson
  • Hlynur Jóhannsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Gunnar Gíslason
  • Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
  • Heimir Haraldsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Jón Þór Kristjánsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista mætti í forföllum Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur.

Í upphafi fundar las forseti eftirfarandi minningarorð:
Ég vil í upphafi fundar minnast fyrrverandi bæjarfulltrúa, Sigurðar Guðmundssonar, sem andaðist nítjánda þessa mánaðar í borginni Lusaka í Sambíu.
Sigurður Guðmundsson fæddist 8. mars 1969 og var því aðeins 53ja ára þegar hann lést.
Sigurður sem bjó lengst af á Akureyri var um árabil umsvifamikill í atvinnurekstri og rak m.a. minjagripaverslunina The Viking og verslanir undir sömu merkjum í Reykjavík.
Sigurður var litríkur persónuleiki og lá ekki á skoðunum sínum. Hann hóf bein afskipti af bæjarpólitík þegar hann stofnaði Bæjarlistann snemma á árinu 2010 og tók sæti í bæjarstjórn að loknum kosningum þá um vorið. Hann sat sem bæjarfulltrúi frá 2010-2014 og sat jafnframt í bæjarráði og skipulagsnefnd á því kjörtímabili.
Fyrir nokkrum árum flutti Sigurður til Sambíu og bjó þar með þarlendri eiginkonu sinni Njavwa Namumba og kornungum syni þeirra en fyrir átti Sigurður þrjú börn með fyrri eiginkonu sinni Jónborgu Sigurðardóttur.
Í Sambíu stofnaði Sigurður m.a. ferðaþjónustufyrirtæki með eiginkonu sinni, og undirbjó innflutning og sölu lyfja undir merkjum Viking Pharma. Hann hélt áfram að fylgjast vel með íslenskum þjóðmálum og var virkur á samfélagsmiðlum.
Bæjarstjórn vottar aðstandendum Sigurðar Guðmundssonar samúð sína, um leið og honum eru þökkuð fórnfús störf í þágu bæjarfélagsins og vil ég fyrir hönd okkar bæjarfulltrúa sem störfuðu með honum í bæjarstjórn þakka gott samstarf.

Forseti bað fundarmenn að heiðra minningu Sigurðar Guðmundssonar með því að rísa úr sætum.

1.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 - síðari umræða

Málsnúmer 2021090476Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. apríl 2022:

Síðari umræða um ársreikning Akureyrarbæjar fyrir árið 2021.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti málið.
Ársreikningur Akureyrarbæjar er borinn upp í heild sinni og samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Akureyrarflugvöllur - breyting á deiliskipulagi vegna aðflugsljósa

Málsnúmer 2021120528Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 20. apríl 2022:

Auglýsingu deiliskipulagstillögu lauk þann 8. apríl sl. Umsagnir um tillöguna bárust frá Hafrannsóknastofnun, Vegagerðinni, Umhverfisstofnun og Minjastofnun Íslands.

Ein athugasemd barst.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki fram lagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Höepfnersbryggju skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillöguna.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Höepfnersbryggju.

3.Reglur um símenntun starfsfólks - endurskoðun 2022

Málsnúmer 2022041944Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. apríl 2022:

Kynnt tillaga að endurskoðuðum reglum um símenntun starfsfólks Akureyrarbæjar.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri mannauðssviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að vísa reglunum með þeim breytingum sem lagðar voru til á fundinum til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum endurskoðaðar reglur með yfirskriftinni Reglur um starfsþróun starfsfólks Akureyrarbæjar.

4.Lausaganga katta

Málsnúmer 2021102286Vakta málsnúmer

Rætt um lausagöngu katta.

Eva Hrund Einarsdóttir hóf umræðuna og lagði fram tillögu að bókun. Auk hennar tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir og Hlynur Jóhannsson.


Bæjarstjórn samþykkir að falla frá samþykkt meirihluta bæjarstjórnar frá 2. nóvember sl., um að lausaganga katta verði alfarið bönnuð frá árinu 2025. Það er ekkert launungarmál og hefur bæði komið fram í umræðu og í könnunum að það eru afar skiptar skoðanir meðal bæjarbúa varðandi lausagöngu katta. Til þess að að ná fram sátt í málinu þá samþykkir bæjarstjórn að samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ verði breytt með það að markmiði að sem flestir geti vel við unað. Bæjarstjórn samþykkir því að gerðar verði breytingar á 2. grein samþykktar um kattahald þar sem sett verði inn tilmæli er snúa að varptíma fugla auk þess sem sett er inn að lausaganga katta verði ekki heimil að næturlagi frá kl. 24.00 til kl. 07.00 og taki það ákvæði gildi frá og með næstu áramótum. Jafnframt leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að nú þegar verði markviss vinna sett í það að framfylgja samþykktinni með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda og skráningarskyldu. Bæjarstjórn samþykkir framlagðar tillögur um breytingar á samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ og vísar til síðari umræðu og endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar.

Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Heimir Haraldsson S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Okkur hefði þótt réttara að fallið hefði verið alfarið frá þeirri ákvörðun sem tekin var á bæjarstjórnarfundi þann 2. nóvember sl. og leggja í kjölfarið áherslu á að fara í fyrsta sinn í það verkefni að framfylgja gildandi samþykkt. Við teljum hins vegar að sú breyting sem lögð er til á samþykktinni vera tilraunarinnar virði í því að sætta sjónarmið, enda til mikils batnaðar frá fyrri ákvörðun.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Heimir Haraldsson S-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir B-lista, Eva Hrund Einarsdóttir D-lista og Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Við felum umhverfis- og mannvirkjasviði að kanna í fullri alvöru hvort að fært sé að koma á samstarfi um rekstur dýraathvarfs í heppilegu húsnæði, enda sé um að ræða þarfa þjónustu er varðar skyldur sveitarfélagsins.

Hlynur Jóhannsson M-lista óskar bókað:

Ég hefði viljað sjá okkur ná meiri sátt í þessu máli til handa þeim sem styðja bann við lausagöngu katta og banna lausagöngu einnig yfir aðal varptíma fugla.

Hlé var gert á fundi frá kl. 16:20 til 16:25

5.Fundir bæjarstjórnar - breytingar á áætlun 2022

Málsnúmer 2022042548Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um breytingu á reglulegum fundum bæjarstjórnar í samræmi við 8. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021. Áætlaður fundur bæjarstjórnar 3. maí 2022 verði felldur niður en í staðinn verði haldinn fundur 10. maí 2022.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti tillöguna.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2022010392Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 13. apríl 2022
Bæjarráð 13. apríl 2022
Skipulagsráð 20. apríl 2022
Umhverfis- og mannvirkjaráð 8. apríl 2022
Velferðarráð 20. apríl 2022

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 16:30.