Lundi í Grímsey. Mynd: Friðþjófur Helgason.
Þótt febrúar sé varla liðinn, lætur vorið nú á sér kræla norður við heimskautsbaug. Fyrir um hálfum
mánuði fór svartfuglinn að setjast upp í björgunum í Grímsey og þykir það óvenju snemmt. Langvía og stuttnefja fylla
þar nú allar syllur og álkan er væntanleg í urðina fyrir neðan.
Svo virðist sem svartfugli hafi fjölgað mjög við heimskautsbauginn á síðustu árum og telja Grímseyingar að fuglinn setjist upp svona
snemma til að tryggja sér pláss. Viðmælandi okkar í Grímsey staðhæfir að miðvikudaginn 4. apríl fyrir hádegi sé loks
von á lundanum í holurnar á bjargbrúninni en sú staðhæfing er birt án ábyrgðar.
Milt og gott veður hefur verið í Grímsey síðustu daga og dýralífið áberandi fjölskrúðugt. Hvalir hafa gert sig heimakomna
við eyjuna og þá einkum hnúfubakur. Sjómenn láta vel af aflabrögðum, rótfiska og segja loðnu vaða um allan sjó.