Þúfutittlingur. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson.
Út er komin fjórða skýrslan um fuglalíf í Krossanesborgum en talið er á fimm ára fresti í fólkvanginum. Krossanesborgir voru
friðlýstar sem fólkvangur árið 2005 í anda Staðardagskrár 21 en svæðið er mikilvægur varpstaður fugla í Eyjafirði.
Sumarið 2013 fundust þar 23 tegundir varpfugla, samtals 613 pör sem er fækkun um 45 pör frá síðustu talningu sumarið 2008.
Helstu niðurstöður sem greint er frá í skýrslunni eru að grágæs, rauðhöfðaönd og stokkönd hefur fjölgað verulega
en vaðfuglum hefur lítillega fækkað. Gera má ráð fyrir að aukinn trjágróður geti leitt til fækkunar heiðlóu,
jaðrakans og spóa. Hettumáfar voru mun færri en 2008 og engar kríur urpu nú í fiðlandinu. Öðrum máfum hefur fjölgað.
Spörfuglum hefur fjölgað verulega frá 2008 og munar þar mest um að fjöldi þúfutittlinga er svipaður og fyrir umtalsverðan felli þeirra
vorið 2006. Stóru máfarnir sílamáfur og silfurmáfur eru enn í sókn og nú hefur varpsvæði þeirra teygt sig út fyrir
friðlandið.
Skýrsluna rituðu Sverrir Thorstensen og Þorsteinn Þorsteinsson að beiðni umhverfisnefndar Akureyrarbæjar. Hún er afar fróðleg fyrir
áhugafólk um fuglalíf og hana prýða fallegar myndir eftir Eyþór Inga Jónsson, Pétur Halldórsson og Sverri Thorstensen.
Fuglalíf Krossanesborga sumarið 2013
(skýrsla á pdf-formi).