Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Greenland Express mun hefja beint flug milli Akureyrar og Evrópu í sumar. Þetta kom fram á fundi Markaðsstofu Norðurlands,
Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyginga, SSNV og Austurbrúar á Hótel KEA í gær.
„Um er að ræða flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og svo áfram til Álaborgar. Stefnt er að því að hefja flug 11.
júní. Bókunarkerfið verður komið í loftið eftir u.þ.b. viku,“ segir Sigurður Pétur Hjaltason, talsmaður Greenland Express.
„Við höfum ákveðið að festa áætlun til 25. nóvember. Stefnan er hins vegar að bjóða upp á þessi beinu flug allt
árið og fjölga áfangastöðum. Við erum að skoða samstarf við Isavia og Flugklasann. Gangi það eftir verður hægt að gera
áætlun til fleiri ára,“ bætir Sigurður Pétur við. Málið er á umræðustigi.
„Reynt verður að hafa miðaverðið sambærilegt því sem þekkist þegar flogið er frá Keflavíkurflugvelli. Þó svo
að meðalverðið verði ef til vill eitthvað hærra þá er markmiðið að gera þjónustuna samkeppnishæfa,“ segir Sigurður
Pétur.
Eins og áður sagði mun Greenland Express hafa umsjón með verkefninu en hollenskt flugfélag sér um að flytja Norðlendinga til útlanda.
„Flugvélin sem um ræðir er af gerðinni F-100, 100 sæta Fokker-vél með nýuppgerðum innréttingum og sætabili upp á 35
tommur,“ segir Sigurður Pétur. Áætlað er að vélin geti auk þess tekið minnst 2 tonn í frakt.
„Við hjá Flugklasanum fögnum þessu,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Frétt af Akv.is.