Nafn: Valgerður Ingibjörnsdóttir (Vallý)
Vinnustaður: Launadeild, launafulltrúi á mannauðssviði.
Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:
Ég er með launahópa/vinnustaði sem ég sé um og ber ábyrgð á, það eru að meðaltali 300 starfsmenn. Stóru kerfin sem ég vinn með eru launakerfin Kjarni og SAP, Vinnustund, skjalakerfið ONE, 50Skills ráðningarkerfi, Outlook. Svo eru það Teams, innra kerfi í Landsbankanum fyrir orlofsreikninga og fleiri. Verkefnin eru fjölbreytt skemmtileg og oft krefjandi svo ég ætla að stikla á stóru. Lengsti tíminn fer í að taka á móti gögnum og skrá upplýsingar í launakerfið og veita upplýsingar um launa- og mannauðsmál. Vista gögn í skjalakerfið og skoða tíma í vinnustund ásamt að fara yfir skráningar í launakerfi. Leiðrétta laun t.d. vegna starfsmats og kjarasamninga og launaraða á ráðningarsamninga, búa til og skrá inn breytingarblöð á samningum, brottfarartilkynningar, uppgjör og fl. Fer yfir skjölin svo allt sé nú rétt. Tek út lista og skýrslur í launa- og viðverukerfinu. Reikna út ýmislegt tengt launum og vinnutíma. Les kjarasamninga sem eru eins og veðrið undanfarið, alltaf eitthvað að breytast og er misskemmtilegt. Við launafulltrúar erum tíðir gestir á vefsíðum Sambandsins sem hefur að geyma margar upplýsingar sem við þurfum að hafa á hreinu. Tölvupóstarnir eru ófáir og samskipti er því stór þáttur í starfinu. Það er mikil samvinna hjá okkur á sviðinu enda erum við stoðþjónusta þvert á öll svið bæjarins. Vinnuaðstaðan mín er orðin eins og hjá færustu tölvuleikjaspilurum, skrifborðið fullt af tölvuskjám til að afkasta sem mestu yfir daginn. Hér er aldrei dauður tími og finn endalaust af nýjum verkefnum til að takast á við, leysa og betrumbæta sem gerir vinnuna áhugaverða og að mér finnst skemmtilega. Mjög gaman að fá að taka þátt í þróun á starfinu og verkferlum og einstaklega hrifin af straumlínustjórnun, breytingum til batnaðar og einföldunar. Launafulltrúar eru alveg þekktir fyrir að vera þverir sem er eðli starfsins því miður, ekki alltaf það skemmtilegasta að fylgja reglum, lögum og samningum og gerum okkar besta í að vera sveigjanleg og lausnamiðuð. Ég grínast mikið yfir daginn með mínum aulahúmor en það er gott að hafa gaman og líða vel í vinnunni því lífið er ekki bara vinna heldur fólkið í kringum okkur. Lífið er líka of stutt til að taka sig of hátíðlega.
Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?
Við höfum komist að því undanfarið að Akureyrarbær er mjög framarlega í rafrænum heimi eftir faraldurinn. Breytingarnar miklar sem eru stanslaust í þróun, alveg til fyrirmyndar og hefði ekki tekist nema með samvinnu við alla starfandi hjá bænum. Við þurftum að taka upp nýtt launakerfi á þessu ári sem hefur verið krefjandi og áskoranirnar margar. Öllum nýjum kerfum og vinnuferlum fylgir nýtt vinnulag og áherslur breytast. Þá tekur það smá tíma að finna taktinn sem gengur vel og allt hefst þetta á endanum með smá þolinmæði og þrautseigju. Launa- og mannauðsdeildin hefur flakkað um Ráðhúsið í mörg ár, næstum eins og í tvöföldu Ævintýri um Gullbrá og birnina, sumt var of stór, annað of lítið og erum núna á nokkuð „passlegum“ stað á þriðju hæðinni. Blómálfurinn okkar hún Sigrún Björk hefur fegrað deildirnar með blómum og held ég svei mér þá að hún framleiði þau heima hjá sér, allavega er alltaf eitthvað nýtt og fallegt að bætast við. Mjög gott að verið sé að vinna að viðhaldi Ráðhússins sem komið er til ára sinna og sannarlega þarfnast þess eins og nýir gluggar og loksins á að setja brunastiga utan á fyrrverandi slökkvistöðina sem virtist ekki þurfa stiga á sínum tíma, við getum þá hætt að slást um lökin við litlu svalirnar þegar brunabjallan hringir.
Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?
Ég er einn af skreytingapúkanum á sviðinu. Eitthvað jóló í des og helst nóg af því og ef tíminn leyfir þá bý ég til borðskreytingar fyrir aðventuna. Hef einnig föndrað eitthvað fyrir hrekkjavöku og sett upp í október sem byrjar annars bleikur. Köngulær eru svo litlar, sætar og saklausar í vefunum sínum. En sko, ég hef tekið eftir að sumir eiga svolítið erfitt með að sitja fundi innan um allar áttfætlurnar (fyrirgefðu mér Friðný). Ég kalla það aðlögun, bara einu sinni á ári. Svo er stöku sinnum föstudags kaffihlaðborð með tilheyrandi kræsingum og jafnvel skemmtilegum þemum. Pínu skrítið reyndar að heyra að það sé sérlega skemmtilegt á þriðju hæðinni á föstudögum undanfarið, þegar ég hef verið heima í fjarvinnu.
Aðeins um þig?
Er hreinræktaður óþroskaður Akureyringur sem bjó um allan bæ en skilgreini mig sem þorpara. Ég nota þó stundum stefnuljós og á erfitt með ofur rólegheit í umferðinni, afleiðing af brjálaðri umferð annars staðar. Reyni mitt besta að fara vel með kaldhæðni og vera jákvæð. Hef flakkað mikið og búið á mörgum stöðum og stundað nám í ófáum skólum en bjó þó lengst í Reykjavík. Í kringum aldamótin fór ég að vinna í blómabúðinni Garðheimar og áhuginn kviknaði á öllu sem hægt var að föndra með og innihélt grænukornum og frumulíffræðin mjög áhugaverð. Þegar ég gekk með fyrsta barn þá lærði ég garðyrkjufræði á blómaskreytingabraut í Hveragerði, vann flest kvöld og helgar og tók nýfæddu mína með í útskriftina. En svo reyndist álags- og vinnutími í blómabúð ekki mjög fjölskylduvænn fyrir einstæða móðir svo ég fór aftur að vinna 8-16 á skrifstofu sem launafulltrúi. Flutti aftur í heimabæinn Akureyri 2012 með börnin mín tvö, keypti handa okkur íbúð og hef unnið launafulltrúastarf hjá Ríki og Sveitarfélagi í um 20 ár, þar af hjá Akureyrarbæ um 11 ár. Á yndislegan eiginmann, hann Helga Má sem margir þekkja og bý með þremur fullorðnum börnum og hundspotti í sveitinni Hrafnagili.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?
Að hafa eitthvað að gera t.d. skapa eitthvað, breyta til heima og bara vera í núinu og framtíðinni. Áhuginn er ýmis konar handavinna í að byggja hús eða sinna léttum viðgerðum á bílunum okkar. Á sumrin reyni ég að vera sem mest úti í garði að gróðursetja og spá í plöntum. Reyndar var þetta sumar svo kalt og engar nýjar plöntur þetta árið. Er mjög heimakær og best að vera innan um fjölskyldu og hitta vinina. Ferðast til Jótlands á hverju sumri í rólegt og fallegt umhverfi.
Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?
Alltaf skemmtilegra að baka og skreyta kökur, tala nú ekki um að búa til skraut úr sykurmassa eða súkkulaði og baka makkarónukökur um jólin og prófa mig áfram í bragðtegundum, piparkökumakkarónur eru sérlega góðar.
Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur?
Fann þessa mataruppskrift fyrir nokkrum árum sem öllum á heimilinu þykir góð og er stöku sinnum smellt á pönnuna.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2020/11/24/geggjadur_kjuklingarettur_med_kasjuhnetum/
Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?
Er ekki mikið að lesa bækur þessa dagana en leysi Sudoku þrautir. Sjónvarps seríurnar The Block eru í uppáhaldi og búin að horfa á þær allar.
Myndin Freedom Writers er mér efst í huga, fínasta mynd byggð á sönnum sögnum og boðskapurinn góður.