Sunnuhlíð 12 - fyrirspurn um aukna nýtingu lóðar.

Málsnúmer 2021101657

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 368. fundur - 27.10.2021

Erindi Helga S. Gunnarssonar dagsett 20. október 2021 fyrir hönd Regins hf. þar sem kynntar eru hugmyndir að bættri nýtingu lóðarinnar Sunnuhlíðar 12 annað hvort með því að stækka núverandi þjónustu- og verslunarmiðstöð eða með því að koma fyrir íbúðum á lóðinni. Er meðal annars gert ráð fyrir möguleika á að koma fyrir starfsemi heilsugæslu á 2. hæð hússins og að hluta í viðbyggingu. Fanney Hauksdóttir hjá AVH kynnti tillögu að stækkun.
Meirihluti skipulagsráðs tekur jákvætt í erindið, hvort sem gert verði ráð fyrir að verslunar- og þjónustustarfsemi og/eða opinber þjónusta verði efld eða að gert verði ráð fyrir íbúðum á lóðinni. Forsenda frekari uppbyggingar er að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið og jafnframt þarf að skoða hvort breyta þurfi aðalskipulagi samhliða.


Sindri Kristjánsson situr hjá við atkvæðagreiðslu og óskar bókað eftirfarandi:

Fyrirliggjandi tillaga um uppbyggingu verslunarkjarnans í Sunnuhlíð 12 svo nýta megi húsnæðið undir starfsemi heilsugæslu er spennandi og vel unnin. Fagna ber áformum um uppbyggingu Sunnuhlíðar með það að markmiði að glæða þennan gamla hverfiskjarna lífi. Á móti kemur er að umhverfi og skipulag svæðisins er með þeim hætti að mati undirritaðs að slík grundvallarbreyting á starfsemi í húsinu rúmast illa með tilliti til umferðaröryggis og lífsgæða íbúa sem fyrir eru á svæðinu. Þá er ekki hægt að líta fram hjá staðarvalsgreiningu sem fram fór á fyrri stigum málsins, þ.e. uppbyggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri. Í henni kom fram með skýrum hætti að lóðin við Skarðshlíð 20 er besti kostur í tengslum við uppbyggingu norðurstöðvar. Skýr vilji framkvæmdastjórnar HSN til að vinna verkefnið áfram með niðurstöðu staðarvalsgreiningar að leiðarljósi var ítrekaður við bæjaryfirvöld á Akureyri með bréfi dagsettu 18. mars á þessu ári.