Halla Björk og Ásmundur Einar við undirritun samningsins í gær.
Halla Björk Reynisdóttir, formaður stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrituðu í gær nýjan styrktarsamning ráðuneytisins við VMÍ.
Markmiðið með samningnum er að styðja Vetraríþróttamiðstöð Íslands til að vinna heildstæða tillögu um starf miðstöðvarinnar og framtíð hennar. Til þessa verkefnis veitir ráðuneytið VMÍ styrk að fjárhæð 4.000.000 kr.
"Þarna er stigið langþráð skref sem gerir okkur kleift að vinna að framtíðarsýn VMÍ og skilgreina betur hlutverk okkar." segir Halla Björk um samninginn. "Meginverkefni VMÍ er að efla vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist, en það er orðið brýnt að skerpa sýn okkar til framtíðar svo við getum eflt starfið öllum vetraríþróttum til heilla."